Már Guðmundsson, seðlabankastjóri fór yfir íslenska efnahagshrunið og ástæðurnar á bak við hrunið í ræðu sinni í pallborðsumræðum um fjármálakreppuna í Evrópu og hagkerfið í Ísrael á vegum Eli Hurvitz-ráðstefnunnar um efnahagslíf og samfélag, en ráðstefnan fór fram í Masada við Dauðahafið í Ísrael. Már tók þátt í þessum umræðum eftir að hafa setið ársfund Alþjóðagreiðslubankans.

„Það voru sannarlega innlendir þættir á bak við þessa útþenslu [bankakerfisins]. Einn þeirra var einkavæðingin á íslenska bankakerfinu stuttu eftir aldamótin, sem var framkvæmd með þeim hætti að setja bankana í hendurnar á áhættuelskandi fjárfestingabankamönnum og á vafasamri kynningu á „fjármálamiðstöðinni Ísland“," sagði Már meðal annars í ræðu sinni í gær. Í ræðunni tók hann einnig fram að það væri erfitt að ímynda sér að þessar aðstæður hefðu getað spilast með þessum hætti án flóðsins af ódýru fjármagni sem fór um allan heim og aðildar Íslands að EES samningnum.

Ræðu Más má finna hér en þar má meðal annars finna lærdóma af íslenska hruninu sem Már telur upp í 7 liðum:

1. Óhóflegt og breytilegt fjármagnsstreymi spilaði stóran þátt í íslensku krísunni, og gjaldeyrishöftin og hinn undirliggjandi greiðslujöfnuður eru arfleifð þess.

2. Að verulegu leyti þá er evrukrísan einnig fjármagnsstreymis - greiðslujafnaðar vandamál.

3. Regluverk fyrir bankastarfsemi yfir landamæri er veruleg gallað. Annað hvort verður afturför í alþjóðavæðingu fjármálakerfisins eða frelsinu verður mætt með opinberu regluverki og stefnumótun.

4. í fjarveru umbóta alþjóðlega eða innan ESB  þá gætu lítil opin hagkerfi á borð við Ísland þurft að grípa til ráða til að vernda sig, til að mynda með hömlum á innlenda banka og með því að setja þrengri skilyrði á gjaldeyrismisvægi og lántöku í erlendum gjaldmiðlum.

5. Sjálfstæður og sveigjanlegur gjaldmiðill er tvíeggjað sverð. Á Íslandi var það hvort tveggja, hluti af vandamálinu og hluti af lausninni.

6. Við þurfum að hugsa um leiðir til að vernda ríkissjóð gegn fallandi bönkum. Að borga út skuldabréfaeigendur er líklega ekki alltaf rétta stefnan.

7. Að lokum, sumir þættir „Íslenska módelsins,“ þurfa frekari umhugsun varðandi hvort hægt sé að beita þeim víðar: að leyfa bönkum að falla, nota gengið sem verkfæri til aðlögunar og að nota gjaldeyrishöft sem verkfæri til að skapa stöðuleika. En við þurfum að varast skrum og ofureinfaldanir. Sumt af því sem Ísland gerði var vegna skorts á öðrum möguleikum og kostnaðar-ábata greiningin af því að leyfa bönkum að falla eða að setja á gjaldeyrishöft  gæti litið öðruvísi út í stærri löndum eða löndum með aðrar tengingar við umheiminn.