Í drögum að ályktun Sjálfstæðisflokksins um endurreisn atvinnulífsins er lagt til að Sjálfstæðisflokkurinn biðjist afsökunar á þeim mistökum sem gerð voru í landsstjórninni undir hans forystu.

Í ályktunardrögunum er fjallað um bankahrunið og talað um að margar samverkandi ástæður hafi valdið því að áfallið hafi orðið og bankarnir hrundu. Veigamiklar þeirra séu utanaðkomandi. Alþjóðlega fjármálakreppan hafi takmarkað mjög aðgang að erlendu lánsfé sem íslensku bankarnir byggðu á. Auk þess hafi þeir sem réðu ferðinni í uppbyggingu bankanna og víðar í atvinnulífinu tekið meiri áhættu en þeir hafi risið undir. Þar með hafi þeir teflt öllu samfélaginu í tvísýnu.

Ástæðurnar fyrir hruninu megi þó einnig rekja til stjórnvalda; ríkisstjórnar, löggjafarvaldsins og stofnana þess. „Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn og löngum í forystuhlutverki á þessum mikla uppgangstíma og þegar áfallið varð. Af því leiðir að Sjálfstæðisflokkurinn ber óhjákvæmilega mikla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í landsstjórninni og hefði verið hægt að komast hjá."

Síðan segir: „Sjálfstæðisflokkurinn axlar þessa ábyrgð og biðst eftir atvikum afsökunar á því sem miður fór en átti að gera betur."