Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins og bætir við sig tæpum 8% frá síðustu kosningum samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR (Markaðs- og miðlarannsókna hf.).

Fylgi Samfylkingarinnar dalar á sama tíma eða um tæplega 6%.

Alls 31,6% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn væri gengið til kosninga nú. Hann fékk 27,1% í kosningunum. Alls 24,1% myndu hins vegar kjósa Samfylkinguna en kjörfylgi hennar er 29,8%.

Fylgi Vinstri grænna mælist 19,8% en var 21,7% í kosningunum, fylgi Framsóknarflokksins er 16,6% en var 14,8% í kosningunum og Borgarahreyfingin mælist með 3,1% fylgi en fékk 7,2% í kosningunum.

Alls 4,8% segjast myndu kjósa aðra flokka.

Könnunin var gerð dagana 9. til 14. september. Úrtakið voru einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára og voru þeir valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.

Álitsgjafar MMR eru liðlega 12 þúsund einstaklingar sem hafa verið valdir með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá.

Svarfjöldinn voru 909 einstaklingar.

Alls 64,8% svarenda sögðust myndu kjósa einhvern af fyrrgreindum flokkum, 18,3% kváðust óákveðin og 9,6% sögðust myndu skila auðu. 5,2% sögðust ekki myndu kjósa og 4,9% sögðust ekki vilja gefa upp afstöðu sína.