,,Sjálfstæðisflokkurinn hefur slegið skjaldborg um Davíð Oddsson á meðan aðrir eru að reyna að slá skjaldborg um heimilin í landinu," segir Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG og formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Nefndin hefur nú Seðlabankafrumvarp ríkisstjórnarinnar til umfjöllunar.

Álfheiður segir að samþykkt frumvarpsins sé eitt lykilatriða þess að hægt sé að slá skjaldborg um heimilin í landinu. ,Endurvekja þarf traust á þessu landi bæði út á við og inn á við," segir hún.

,,Ríkisstjórnin er farin og Fjármálaeftirlitið er farið en einnig þarf að breyta skipulagi Seðlabankans og styrkja þar faglega stjórnun til að endurvekja traust."

Mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi í síðustu viku. Eftir það var því vísað til viðskiptanefndar þingsins. Nefndin tók málið til umfjöllunar nú á þriðjudag en í vikulok hafa umsagnaraðilar verið boðaðir á þingnefndarfund. Þá má búast við að skriflegar umsagnir berist nefndinni um miðja næstu viku.

Fái hraða afgreiðslu

Þingmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við segja ólíklegt að það náist að afgreiða frumvarpið fyrr en í fyrsta lagi undir lok þessa mánaðar. Álfheiður segir þó að markmiðið sé að afgreiða frumvarpið úr nefnd ,,án ónauðsynlegra tafa," eins og hún orðar það í samtali við Viðskiptablaðið.

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði áherslu á það í fyrstu umræðu að málið fengið hraða umfjöllun og afgreiðslu á þinginu.

,,Hver dagur er dýrmætur nú þegar svo mikið veltur á að okkur takist að endurreisa trúverðugleika og traust þessarar mikilvægu stofnunar sem Seðlabanki Íslands er gagnvart alþjóðasamfélaginu sem og íslensku samfélagi öllu," sagði Jóhanna er hún mælti fyrir frumvarpinu.

Nánar er fjallað um Seðlabankafrumvarpið í Viðskiptablaðinu sem birt var hér á vefnum í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .