Stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn mælist 28,8% í könnun MMR (Markaðs- og miðlarannsókna ehf.) á fylgi stjórnmálaflokkanna en könnunin var að mestum hluta framkvæmd dagana 6. til 7. apríl eða áður en styrkjamálin komust í kastljósið.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn með 29,8%.

Munurinn milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks er þó ekki marktækur og reyndar á það sama við um Vinstri græn en fylgið við hann er samkvæmt könnuninni 25,9%.

Vikmörkin í könnuninni eru í kringum 3,5%.

Framsóknarflokkurinn virðist ekki vera að ná sér á strik ef marka má könnunina en fylgið við hann er 9%. Kjörfylgi flokksins er tólf prósent.

Frjálslyndi flokkurinn með innan við tvö prósent fylgi

Borgarahreyfingin mælist með 4,1% fylgi, samkvæmt könnun MMR en aðrir flokkar mælast með fylgi undir 2%. Frjálslyndi flokkurinn virðist því eiga langt í land með að ná manni inn á þing ef marka má þessa sem og undanfarnar kannanir.

Úrtakið í könnuninni eru einstaklingar á aldrinum 18 til 67 ára. Þeir voru valdir handahófskennt úr þjóðskrá. Könnunin var gerð í gegnum net og síma. Svarfjöldi var 876 einstaklingar.

Könnunin var framkvæmd dagana 6. til 14. apríl en 85% gagnaöflunar átti sér stað dagana 6. til 7. apríl.