Samfylkingin og Vinstri grænir mælast báðir stærri en Sjálfstæðisflokkurinn.

Tæp 8% aðspurðra segjast vilja kjósa aðra flokka en buðu fram í síðustu Alþingiskosningum og stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú rétt um 11% minni en í lok október.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Markaðs- og miðlarannsóknir ehf. (MMR) birti í gær.

Samkvæmt könnum MMR mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins nú tveimur prósentustigum lægra en það mældist í október en fylgi Samfylkingar og Vinstri græna helst næsta óbreytt.

Þá fellur fylgi Framsóknarflokksins um nærri helming frá síðustu könnun og mælist nú 4,9%. Þá kemur fram í tilkynningu MMR að sé fylgi Framsóknarflokksins skoðað út frá búsetu kemur í ljós að flokkurinn mælist með 2,5% fylgi á höfuðborgarsvæðinu en 9,2% fylgi á landsbyggðinni.

Þá mælist fylgi Frjálslynda flokksins nærri óbreytt, eða um 3% og fylgi Íslandshreyfingarinnar í 1,6%.

Spurt var, ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú líklegast kjósa?

Þeir sem á annað borð tóku afstöðu svöruðu á eftirfarandi hátt (svör frá því í október innan sviga).

  • Framsóknarflokkinn, 4,9% (9,2%)
  • Sjálfstæðisflokkinn,  25,7% (27,8%)
  • Frjálslynda flokkinn, 3% (3,5%)
  • Íslandshreyfinguna 1,6% (0,7%)
  • Samfylkinguna 27,1% (27,3%)
  • Vinstri græna 30% (29%)
  • Annað 7,7% (2,5%)

Samtals tóku 59% afstöðu til spurningarinnar, aðrir kváðust óákveðnir (23%), myndu skila auðu (12%), myndu ekki kjósa (2%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (4%).

Aðeins um helmingur kjósenda Samfylkingarinnar styður ríkisstjórnina

Eins og fyrr segir minnkar stuðningur við ríkisstjórnina um 11% og mælist stuðningur við hana nú 34,5%. Um 81% aðspurðra tóku afstöðu til spurningarinnar.

Í lok október sögðust 45,2% aðspurðra styðja ríkisstjórnina.

Fleiri karlar en konur sögðust styðja ríkisstjórnina, eða 36,5% á móti 32,2%.

Þá sögðust 96,8% þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn styðja ríkisstjórnina (98,1% í október) en aðeins 52,5% þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna (62,2% í október).

Úrtak rannsóknarinnar var 2464 einstaklingar á aldrinum 18 - 67 ára um fylgi stjórnmálaflokka og stuðningi við ríkisstjórnina. Könnunin var framkvæmd dagana 2. – 5. september.