Þórður Guðjónsson, knattspyrnumaður hefur ákveðið að gefa kost á sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns .

„Í dag eru þrír þingmenn fyrir kjördæmið og því gef ég kost á mér í eitt af þremur efstu sætum listans,” segir Þórður í samtali við Skessuhorn.

Þórður tilkynnti félögum sínum í Sjálfstæðisfélagi Akraness þessa ákvörðun sína á fundi sl. þriðjudag.

„Ég tilkynnti þeim að aðilar innan flokksins hafi komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða fram krafta mína. Ég fór í framhaldinu yfir málið með mínum nánustu og ákvað í kjölfarið að hella mér í þetta,” segir Þórður.

Fundur í kjördæmisráði Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi verður haldinn næstkomandi laugardag í Borgarnesi. Þá mun verða tekin ákvörðun um aðferðafræði við val á lista flokksins.

Til gamans má geta þess að Þórður er bróðursonur Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu Geirs H. Haarde.