Sjálfstæðisflokkurinn vill að skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar á heimilin verði dregnar að fullu til baka á næstu tveimur árum. Er það meðal þess sem flokkurinn leggur til í þingsályktunartillögu sem verður lögð fram um leið og þing kemur saman á fimmtudaginn.

Í tillögunni kemur fram að efnahagsbatinn sem spáð var á þessu ári láti standa á sér en það sé afleiðing vanhugsaðra aðgerða í skattamálum og aðgerðaleysis í málefnum heimila og atvinnulífs.

Greiðsluaðlögun verði einfölduð

Í fréttatilkynningu frá flokknum segir að með þingsályktunartillögunni vilji sjálfstæðismenn  að greiðsluaðlögunarúrræði verði einfölduð verulega og rýmkuð frá því sem nú er. Öllum sem þess óska eigi að standa til boða að lækka greiðslubyrði fasteignalána sinna um allt að 50% næsta þrjú árin gegn lengri lánstíma.

„Þá skuli þeir sem missa atvinnu eiga rétt á að frysta greiðslur vegna húsnæðisskulda í allt að sex mánuði. Þeim sem missa heimili sitt vegna mikillar skuldsetningar eða gjaldþrots verði gert kleift að endurleigja það gegn hóflegri greiðslu og njóta kaupréttar á húsnæðinu í allt að fimm ár.

Lagt er til að fyrningarfrestur eftir gjaldþrotaúrskurði verði styttur, afskrifaðar skuldir einstaklinga sem verða eignalausir myndi ekki skattstofn, stimpilgjöld verði afnumin og að tryggt verði með lagabreytingu að þeir, sem misst hafa eigur sínar vegna vanskila á ólögmætum gengistryggðum lánum, geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Skulu þeir njóta flýtimeðferðar. Auk þessa er lagt til að vaxtabóta- og húsaleigubótakerfin verði styrkt í þágu þeirra sem bágust kjörin hafa.“

Störfum fjölgi um 22 þúsund

Þá segir að mynda þurfi 22 þúsund ný störf á næstu tveimur til þremur árum. Með bættum rekstrarskilyrðum muni lítil og meðalstór fyrirtæki ná sér fljótt á strik, en þar verði flest störf til.

Auka þorskafla og framkvæmdir í Helguvík

Meðal tillaga Sjálfstæðisflokksins er að auka þorskafla um 35.000 tonn og hverfa frá fyrningarleiðinni. Þá skal greiða fyrir framkvæmdum í Helguvík og koma á orkufreku verkefni á Bakka. Einnig á að hrinda í framkvæmd arðbærum verkefnum í samvinnu við lífeyrissjóði og aðra.

Gjald vegna innstæðutrygginga

Einnig er lagt til að á meðan yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ábyrgð á innstæðum í fjármálafyrirtækjum sé í gildi verði tekið sérstakt 0,25% gjald af stofni allra innstæðna í bönkunum. Ítrekar er í tillögunni að farin verði sú leið að skattleggja inngreiðslur séreignarsparnaðar.