Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna á Akranesi telur óhjákvæmilegt að nú þegar verði leitað eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið og leitt verði í ljós hvaða kostum þjóðin standi frammi fyrir ef til aðildar kemur. Jafnframt skoraði stjórn fulltrúaráðsins á Geir H. Haarde forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins að skerpa nú þegar áherslur ríkisstjórnar Íslands við það mikla verkefni sem stjórnin stendur andspænis við endurreisn fjármálakerfis landsins. Forgangsverkefnið sé að slá skjaldborg um fjárhagslega framtíð heimilanna í landinu.

„Þá skorar stjórnin á formann Sjálfstæðisflokksins að sjá til þess að við endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar veljist einungis til starfa þeir sem njóta óskoraðs trausts og hæfis til starfa. Óhjákvæmilegt sé í því ljósi að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki nú þegar.“

Í greinargerð með ályktuninni segir að íslenskt þjóðfélag standi andspænis alvarlegri fjárhagslegum vandamálum en sést hafa í sögu hennar til þessa eftir hrun fjármálakerfis þjóðarinnar

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur með störfum sínum í ríkisstjórn undanfarin 17 ár staðið fyrir auknu frelsi og tímabærri markaðsvæðingu í þjóðfélaginu. Slíku frelsi hlaut óhjákvæmilega að fylgja ábyrgð og reglufesta af hálfu atvinnulífs og stjórnvalda. Því miður virðast þeir þættir hafa brugðist á undanförnum árum. Því eru það ekki óeðlileg viðbrögð almennings að kalla eftir ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þeirri stöðu sem nú er upp komin. Þeirri ábyrgð verður flokkurinn að standa undir vilji hann halda því forystuhlutverki sem hann hefur gegnt á undanförnum áratugum.

Á skömmum tíma hefur orðspor Íslendinga beðið stórkostlegan hnekki. Við endurreisn fjármálakerfis þjóðarinnar verða stjórnmálamenn því að horfa gagnrýnum augum á atburðarás undanfarinna ára og leitast við að skýra með hvaða hætti þær aðstæður sköpuðust sem við nú stöndum frammi fyrir. Með gildum rökum hefur komið fram að peningamálastefna sú sem rekin var hafi ekki stuðlað að sterku fjármálakerfi. Einnig hefur komið í ljós að eftirlitsaðilar hafa ekki sinnt hlutverki sínu og upplýsingagjöf sem skyldi. Að vandasömu endurreisnarstarfi því sem framundan er geta aðeins komið að þeir sem fulls trausts njóta. Því er óhjákvæmilegt að stjórnendur Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins víki til þess að tryggja sem breiðasta sátt um endurreisnina. Jafnframt verða allir stjórnmálamenn að svara hver um sig þeirri spurningu hvort þeir njóti þess trausts og hæfis sem nauðsynlegt er í þá vinnu sem bíður þeirra. Með skjótum hætti verður einnig að tryggja að þeir sæti ábyrgð sem hugsanlega hafa brotið lög í aðdraganda hrunsins.

Á undanförnum vikum hefur komið æ betur í ljós að staða Íslands meðal þjóða er ákaflega veik. Þá stöðu er bráðnauðsynlegt að styrkja. Því er tímabært að  á ríkisstjórn Íslands hefji nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið þannig að í ljós komi hvaða kostum þjóðin standi frammi fyrir ef til aðildar kemur. Óþolandi er að svo stórt hagsmunamál sé ekki kannað til hlítar með formlegum aðildarviðræðum.“