Orkufrumvarp iðnaðarráðherra var síðdegis afgreitt úr þingflokki sjálfstæðismanna. Hópur þingmanna afgreiðir þó frumvarpið með fyrirvara. Viðræður hafa staðið milli stjórnarflokkanna um breytingar á frumvarpinu áður en því verður dreift á Alþingi.

Þingflokkur Samfylkingarinnar afgreiddi frumvarpið fyrir sitt leyti í janúar en áður hafði það verið samþykkt í ríkisstjórn. Frumvarpið hefur hins vegar staðið í þingflokki sjálfstæðismanna. Þaðan var það þó afgreitt síðdegis.

Breytingar verða gerðar á því áður en það verður lagt fram á Alþingi. Sömuleiðis kunna að verða gerðar frekari breytingar á því í meðförum þingsins. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, segir í samtali við Viðskiptablaðið að forsætisráðherra muni ræða athugasemdir sjálfstæðismanna við iðnaðarráðherra.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, verði ekki heimilt að framselja með varanlegum hætti orkuauðlindir sínar. Þá er í því lagt til að greint verði á milli  samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Jafnframt er lagt til að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi verði að meirihluta í opinberri eigu.