Stjórn málfundafélagsins Óðins, félags sjálfstæðismanna í launþegasamtökum, mótmælir harðlega frumvarpi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar um ríkisábyrgð á icesave-skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. og krefst þess að hver einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins greiði atkvæði gegn frumvarpinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Stjórnin segir að með frumvarpinu sé lögð á ríkið ábyrgð á skuldum einkafyrirtækis, skuldum sem ríkið ber enga ábyrgð á og hefur aldrei gengist undir.

„Þeir „fyrirvarar“ sem þingmenn telja sig setja við ríkisábyrgðina skipta sáralitlu máli en með Icesave-samkomulaginu er íslenska ríkinu meira að segja sérstaklega bannað að gæta hagsmuna sinna, svo sem með skuldajöfnuði gagnvart breska ríkinu. Gæti það orðið til þess að hundraða milljarða króna krafa vegna beitingu hryðjuverkalaga Breta yrði að engu,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt:

„Málfundafélagið Óðinn lýsir furðu sinni á því, ef núverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins reynast leggja meira upp úr því að ná „samstöðu“ með þingmönnum vinstriflokkanna í fjárlaganefnd, en að standa með augljósum íslenskum hagsmunum. Réttur Íslands í málinu er skýr, en þingmenn virðast hvorki vilja heyra hann né sjá. Íslenska ríkið ber enga ábyrgð á icesave-reikningum Landsbankans. Með samþykkt frumvarps fjármálaráðherra ákveða alþingismenn upp á sitt eindæmi að breyta því.  Óðinn mótmælir því mjög harðlega.“