Sjálfstæðismenn hafa ákveðið að setja á laggirnar sérstaka  nefnd um Evrópumál innan flokksins. Þá hafa þeir ákveðið að flýta landsfundi vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu.

Fundurinn fer fram um um mánaðamót janúar/febrúar.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, var rétt í þessu að tilkynna þetta á sérstökum blaðamannafundi í Valhöll. Hann sagði að nefndinni væri meðal annars ætlað að skoða stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu.

"Þetta nefndarstarf felur ekki í sér að það sé búið að breyta um afstöðu í Sjálfstæðisflokknum," sagði hann og ítrekaði að landsfundur tæki ákvörðun um slíkt. Nefndinni er ætlað að skila niðurstöðu fyrir landsfund. Á grundvelli hennar mun landsfundur flokksins meta hvort framtíð Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess.

Miðstjórn flokksins og þingflokkur hafa fundað frá því um hádegisbil og þar var þetta ákveðið. Fundir þeirra standa enn yfir, að því er fram kom í máli Geirs.

Grasrót flokksins virkjuð í starfið

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að Ísland væri í breyttum heimi og að þess vegna yrði að fara í kalt hagsmunamat. Nú þyrfti að virkja allan flokkinn og alla grasrótina um þessi mál. "Við viljum fá alla með okkur í þá vinnu sem framundan er," sagði hún á blaðamannafundinum, sem stendur nú yfir.

"Ég segi við sjálfstæðismenn: Mótum stefnuna saman," sagði hún.

Óttast ekki klofning flokksins

Geir sagði aðspurður að innan flokksins væru harðir andstæðingar ESB og harðir stuðningsmenn. Menn skipuðu sér þó ekki í flokka á grundvelli þeirra sjónarmiða. Hann kvaðst aðspurður ekki óttast klofning vegna þessa.

Geir sagði að sjálfstæðismenn væru ekki að svara Samfylkingunni með þessari vinnu sem nú færi af stað um Evrópumálin. Sjálfstæðismenn væru flokkur sem væri  fljótur að bregðast við.

Mikil gerjun um Evrópumál

Formaður nefndarinnar verður Kristján Þór Júlíusson þingmaður og varaformaður verður Árni Sigfússon bæjarstjóri. Frekari tilnefningar í nefndina liggja ekki fyrir.

Mikil gerjun hefur verið í Sjálfstæðisflokknum um Evrópumál undanfarnar vikur, ekki síst eftir hrun fjármálakerfisins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var þessi leið, sem nú er kynnt, mótuð og ákveðin í þessari viku.

Geir lagði þessa Evrópuvinnu formlega til á sameiginlegum fundi miðstjórnar og þingflokks í dag og var hún einróma samþykkt.