„Það er rangt að við höfum ekki verið til í að gera breytingar á öðrum stofnunum í þjóðfélaginu," sagði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, á fundi með sjálfstæðismönnum í dag. Sjálfstæðismenn hefðu til dæmis viljað gera breytingar á lögum um Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið með það fyrir augum að sameina þessar stofnanir.

Þeir hefðu hins vegar talið rétt að breytt ríkisstjórn - með nýjum ráðherrum sem taka átti við um áramótin - hefði átt að ráðast í og kynna frekari breytingar.

Geir greindi frá því að hann hefði gert tillögu um ráðherrabreytingar fyrir jól og meðal annars lagt fyrir formann Samfylkingarinnar þá tillögu að hún fengi fjármálaráðuneytið. Sú breyting hefði ekki gengið eftir um áramót „í og með", sagði hann, „vegna fullkomlega skiljanlegra aðstæðna hjá formanni Samfylkingarinnar."

Stjórnarmenn fréttu af afsögn sinni eftirá

Geir sagði að dagarnir í janúar hefðu verið viðburðaríkir. Sérfræðingur frá Finnlandi hefði verið að fara yfir það hvernig breyta ætti FME sem og sérfræðingur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Um liðna helgi hefði Samfylkingin hins vegar látið til skarar skríða gagnvart FME. „Sumir stjórnarmanna fréttu það eftir á að þeir hefðu sagt af sér," sagði hann „og samið var við forstjóra Fjármálaeftirlitsins að hætta í mars."

Þá hefði komið upp sú staða, sagði hann, að þessi mikilvæga stofnun hefði orðið stjórnlaus og hefði verið alla vikuna. „Það er ekki einu sinni ráðherra tiltækur til að skipa henni nýja stjórn," sagði Geir og bætti við: „Þetta eru ekki vinnubrögð sem hægt er að hrópa húrra fyrir."

Hann sagði að Samfylkingin hefði, og ef til vill einhverjir fleiri, látið stjórnast af ótrúlegu miklu hatri á einum manni og átti þar við Davíð Oddsson Seðlabankastjóra. Það virtist hafa haft úrslitaáhrif á afstöðu þeirra til skipulagsbreytinga í stjórnkerfinu.