Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, talaði fyrir rauðgrænni ríkisstjórn að kosningum loknum í ræðu sem hann flutti í upphafi landsfundar Vinstri grænna nú síðdegis. Það yrði best tryggt, sagði hann, með öflugum kosningasigri VG.

„Samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka hefur gengið vel og nýtur stuðnings þjóðarinnar. Það leggur góðan grunn að framhaldinu."

Hann sagði að öflugir aðilar biðu hins vegar eftir því að komast aftur að kjötkötlunum og í aðstöðu til að skipta reitunum á milli sín. „Það ætlum við að stoppa. Sjálftökuliðið má ekki komast aftur að uppsprettunum. Það á ekki að endurskapa Ísland ársins 2007."

Steingrímur gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn harðlega og sagði að hugmyndafræði flokksins síðastliðin 25 til 30 ár væri að hrynja til grunna. „Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem öllum öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum fremur ber ábyrgðina á því hvernig komið er fyrir Íslandi á þessari stundu. Þeim mun mikilvægara er að hann komist ekki aftur til valda, um langa framtíð."

Ekki feimin við að taka til eftir veisluna

Steingrímur kom víða við í ræðunni. Hann fjallaði þar m.a. um skuldastöðu þjóðarbúsins. Hún væri erfiðasta úrlausnarefnið um þessar mundir, fyrir utan atvinnuleysið. Skuldir þjóðarbúsins færu nú, að áætlað væri, úr 230 milljörðum í árslok 2007 í 1.100 milljarða í lok þessa árs.

Hlutskipti Vinstri grænna væri að taka af ábyrgð, festu og kjarki á hinum afdrifaríku verkefnum. „Við erum ekki feimin við að mæta til leiks og taka til eftir veisluna, sópa, skúra, dusta rykið, moka út, gera það sem gera þarf til að hreinsa til í samfélaginu. Til að tryggja að hér verði rannsakað og upplýst, málin verði heiðarlega gerð upp og þannig geti þjóðin síðan snúið sér af öllu afli að hinu stóra framtíðarverkefni að byggja okkur upp á nýjan leik."