Þula er í grunninn hópur af sérfræðingum sem hafa unnið saman í rúmlega fimmtán ár,“ segir Garðar Már Birgisson, viðskiptaþróunarstjóri Þulu. „Við unnum mörg hjá TM Software á árum áður og tókum þaðan nokkrar lykkjur þangað til við stofnuðum þetta fyrirtæki árið 2011. Við höfum alltaf unnið að lyfjatengdum verkefnum, þannig að á þessum ansi langa tíma höfum við safnað afar mikilli þekkingu á þessu sviði. Við höfum í rauninni gert fátt annað,“ segir Garðar Már.

Á þessum árum hefur Þula starfað í nokkrum löndum – en eiginlega minnst á Íslandi. „Við vorum lengi með verkefni í Hollandi, Danmörku, Þýskalandi og aðeins í Austurríki og víðar en síðustu árin, eftir stofnun Þulu, höfum við starfað langmest á norskum markaði. Starfsmenn fyrirtækisins voru í upphafi sjö en núna erum við um tuttugu. Okkur hefur gengið mjög vel og verið í fínum rekstri,“ segir Garðar Már, en Þula var í efsta sæti á Technology Fast 50 lista Deloitte á Íslandi árið 2015. Félagið fékk einnig útnefningu sem National Public Champion frá European Business Awards í flokki nýsköpunar árið 2016-2017.

„Allt sem við fáumst við snýst um öryggi sjúklinga og hagkvæmni í rekstri. Það er það sem við gerum. Í Noregi erum við í viðskiptum við nokkra aðila, meðal annars stærsta heilbrigðisumdæmi landsins í suðaustri, Mið-umdæmið, og síðan höfum við þróað í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið í Noregi  hugbúnað sem notaður er af um 40% allra heimilislækna í Noregi og að vissu marki á öllum sjúkrahúsum í vestur- og miðhlutum Noregs.“

Svar við flóknum og brothættum verkferlum

Lausnir Þulu eru aðallega tvær – önnur gerir læknum kleift að ávísa lyfjum með rafrænum hætti og heldur utan um útgáfu lyfseðla. Hin styður við flókna verkferla í lyfjaumsýslu á sjúkrahúsum, öldrunarheimilum og sjúkraapótekum til að besta magn lyfja á sjúkradeildum og draga úr tíma sem tekur að höndla með lyf í apóteki og á sjúkradeildum. Fyrri lausnin er að mestu notuð af læknum en sú seinni er hönnuð fyrir lyfja- og hjúkrunarfræðinga.

„Heilbrigðisgeirinn er einn stærsti geirinn í öllum vestrænum löndum. Landspítalinn er eitt stærsta fyrirtækið á Íslandi og stærstur hluti opinberra útgjalda fer í heilbrigðismál. Lyf eru næststærsti kostnaðarliðurinn á eftir launum og því skiptir meðhöndlun þeirra mjög miklu máli. Það sem er merkilegt, ekki bara á Íslandi, er að verkferlar í kringum þau hafa lítið þróast og eru í dag að stórum hluta studdir af pappírsformum sem er mjög óskilvirk leið. Lengst af hafa einungis tvær stofnanir á Íslandi ávísað lyfjum rafrænt fyrir inniliggjandi einstaklinga – Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri,“ segir Garðar Már en þar eru samanlagt um 1.000 rúm.

Það er þó að breytast á næstu dögum. Utan þessara stofnana segir Garðar Már að séu um 3.000 sjúkrarúm, til dæmis á hjúkrunarheimilum og landsbyggðarsjúkrahúsum. Lyfjum til þeirra sem í þeim liggja er ávísað á pappír. „Það er ekki mjög skilvirkt auk þess sem því fylgir óþörf villuhætta, hætta á óhöppum og öllu sem því fylgir. Tækifærin felast í að taka þessa verkferla, umbreyta þeim og gera þá skilvirkari og öruggari. Þannig fækkum við óhöppum, björgum jafnvel mannslífum og nýtum fjármuni betur, en það er einmitt það sem vakir fyrir okkur með því að bjóða eMed-hugbúnaðinn að koma til sögunnar á íslenskum markaði,“ segir Garðar Már.

Hann segir að lyf séu hvort tveggja dýr og hættuleg séu þau ekki notuð rétt. „Lyf eru líka viðkvæm vara þannig að fyrningar og annað slíkt er eitthvað sem þarf að taka mjög alvarlega. Sérstaka athygli þarf að veita svokölluðum eftirritunarskyldum lyfjum og það er hluti af því sem við leysum.“ Garðar segir samspil þekkingar og reynslu starfsmanna Þulu setja fyrirtækið í lykilstöðu til að starfa á jafnviðkvæmu sviði og heilbrigðisgeirinn er. „Við höfum mjög langa reynslu af því að þróa og þjónusta „mission critical“ hugbúnað – það væri ekkert grín ef þessi hugbúnaður færi niður og t.d. 15.000 heilbrigðisstarfsmenn í Mið-Noregi lentu í vandræðum með að tína til lyf,“ segir Garðar Már.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .