Hugbúnaðarfyrirtækið OZIO aðstoðar fyrirtæki við að koma upp rafrænum verkferlum og auka sjálfvirkni í sínum rekstri. Sigurjón B. Hákonarson, framkvæmdastjóri OZIO, segir að stafrænar lausnir séu að verða sífellt veigameiri þáttur í starfsemi fyrirtækja. Mörg fyrirtæki, þá sértaklega lítil, telji þó að sú þróun sé þeim fjarlæg. OZIO hafi hins vegar verið að benda fyrirtækjum á að hægt sé að ná heilmiklum árangri í stafrænni vegferð með tiltölulega einföldum leiðum.

„OZIO var stofnað haustið 2017 en starfsmannahópur fyrirtækisins starfaði áður saman hjá öðru fyrirtæki. Við erum nær alfarið að vinna inni í Office 365 tölvuumhverfinu frá Microsoft. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil vakning innan fyrirtækja að færa sig yfir í þessar skýjalausnir og því eru fyrirtækin nú að breyta sínu tölvuumhverfi yfir í það að vera að kaupa þjónustuna í mánaðarlegri áskrift í staðinn fyrir að reka þetta sjálf eða vera með hýsingaraðila.

Við erum að smíða lausnir inn í Office 365 umhverfið fyrir fyrirtæki og hjálpum þeim að einfalda verklag sitt og ferla. Það sem vanalega tekur einhvern einstakling nokkur handtök að gera og hann gerir aftur og aftur, erum við að reyna að láta hugbúnaðinn gera sjálfvirkt."

Að sögn Sigurjóns er hægt að sjálfvirknivæða hina ýmsu verkferla fyrirtækja án mikils tilkostnaðar.

„Inni í Office 365 umhverfinu er til hugbúnaður sem getur sett upp sjálfvirka verkferla. Með þessum lausnum er með tiltölulega litlum kostnaði hægt að sjálfvirknivæða einfalda ferla. Sem dæmi má benda á að fyrirtækið okkar, sem er smátt og ekki með nema sex starfsmenn, er að nýta sér mikinn fjölda af svona sjálfvirkniferlum. Við höfum lagt áherslu á að vera ekki að finna upp hjólið og erum því ekki að smíða einhverjar lausnir frá grunni. Það eru mjög flottar lausnir inni í þessari skýjalausn og það sem við erum aðallega að gera er að tengja þær saman."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .