„Kynslóðin frá 30 til 45 ára á höfuðborgarsvæðinu - plús eða mínus örfá ár - er sjálfhverfasta kynslóðin á Íslandi. Hún talar ekki um neitt annað en sjálfa sig. Þetta er kynslóðin sem sjálf sagði sig bera langt af öllum jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum. Þetta er kynslóðin sem hélt sig geta kennt öðrum þjóðum hvernig reka ætti banka. Þetta er kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana, sem sögðust bera íslenska víkingablóðið í æðunum og "keyptu" ýmis þekktustu vörumerki Norður-Evrópu, vínræktarhéruð í Suður-Evrópu og turna í Macao, notaði gullduft sem útálát á steikurnar í Róm og ferðaðist um í einkaþotum og lystisnekkjum - allt í skuld.“

Þetta segir Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir þessa kynslóð segja fall krónunnar vera forsendurbrest þó svo að íslenska krónan hafi fátt annað gert alla sína hundstíð en að falla.

Hann segir jafnframt að stórfellt eignatap fólksins við sjávarsíðuna eftir að kvótinn var seldur skipti þessa kynslóð ekki miklu máli. Aðalspurning þessa hóps til frambjóðenda sé nú „Hvað ætlar þú að gera fyrir mig?“