*

fimmtudagur, 17. júní 2021
Innlent 2. desember 2019 14:02

Sjanghæ ætlar með reikninga fyrir dóm

Eigendur veitingastaðarins Sjanghæ ætla með 11 milljóna málskostnað lögmanns fyrir dóm. Ekki „flugufótur“ fyrir ásökunum.

Ritstjórn
Skapti Hallgrímsson

Sævar Þór Jónsson lögmaður veitingastaðarins Sjanghæ sem starfræktur var á Akureyri en hætti starfsemi í kjölfar ásakana í RÚV um að á staðnum væri stundað mansal, segir umbjóðanda sinn ætla með milljónareikning fyrri lögmanns fyrir dómstóla.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi vísaði nýlega úrskurðarnefnd lögmanna frá sér kröfum um niðurfellingu eða lækkun á rúmlega 11 milljóna króna reikningi frá lögmanninum Jóhannes Má Sigurðarsyni sem hafði tekið að sér að gæta hagsmuna félagsins í fjölmiðlum.

Hefur nýr lögmaður félagsins sent frá sér yfirlýsingu um málið þar sem bent er á að málsvarnir fyrrum lögmanns félagsins hafi ekki hlotið efnislega meðferð sem og að málsvörnum hans og fullyrðingum hafi verið mótmælt. Jafnframt áréttar hann að rannsókn lögreglu á ásökunum um mansal og ómannsæmandi meðferð hafi ekki leitt í ljós „flugufót“ fyrir ásökununum.

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild:

„Af tilefni umfjöllunar Viðskiptablaðsins og DV um kæru umbjóðenda minna Life Iceland ehf. og Rositu Yufan Zhang til úrskurðarnefndar lögmanna á hendur fyrrverandi lögmanni þeirra, vill undirritaður fyrir hönd ofangreindra umbjóðenda taka eftirfarandi fram.

Úrskurðarnefndin tók ekki efnislega afstöðu til málsins þar sem nefndin taldi kærufrest til nefndarinnar liðinn. Ágreiningur umbjóðenda minna við fyrrverandi lögmann sinn um þókun hans og störf hefur því ekki verið til lykta leiddur. Af þeim sökum er umbjóðendum mínum nauðsynlegt að leita til dómstóla til þess að fá efnislega úrlausn málsins. Er undirbúningur þegar hafinn fyrir þá málshöfðun. 

Að sama skapi hafa þær málsvarnir sem fyrrverandi lögmaðurinn tefldi fram fyrir úrskurðarnefnd lögmanna ekki hlotið efnislega meðferð og er langt því frá að hægt sé að líta á þær varnir sem raunverulega málsatvik. Hefur málsvörnum og fullyrðingum hans verið mótmælt sem röngum og ósönnuðum með öllu. Umbjóðendur mínir hafa í hyggju að láta reyna á sannleiksgildi þeirra fyrir dómi sem fyrr segir.

Það skal áréttað að rannsókn lögreglu á sínum tíma leiddi í ljós að ekki var flugufótur fyrir ásökunum þeim sem bornar voru á hendur umbjóðendum mínum um mansal og ómannsæmandi meðferð á starfsfólki veitingastaðarins Sjanghæ á Akureyri.

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA“