*

föstudagur, 23. október 2020
Innlent 10. september 2020 10:40

Sjáum aftur „blússandi viðskiptaafgang“

Seðlabankastjóri segir gengi krónunnar mun lægra en fær staðist. Hefur ekki áhyggjur af gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða.

Ritstjórn
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Gígja Einarsdóttir

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir það vera óskynsamlegt fyrir lífeyrissjóðina að rjúka í mikil gjaldeyriskaup nú þegar gengi krónunnar er í tímabundinni lægð að því er Fréttablaðið greinir frá. Samkomulag lífeyrissjóðanna við Seðlabankann um tímabundna stöðvun gjaldeyriskaupa vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins rennur út 17. september.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í gær hefur Seðlabanki Íslands boðað að frá og með mánudag muni bankinn selja 3 milljónir evra hvern viðskiptadag, alls allt að 240 miljónir evra til áramóta, til að dýpka markaðinn og auka verðmyndun.

Það samsvarar um 40 milljörðum íslenskra króna, eða 4% af gjaldeyrisforðanum og um 5,5% af hreinni gjaldeyriseign bankans. Gjaldeyrisforði bankans nam 973 milljörðum króna í lok ágúst síðastliðnum, þar af er hrein gjaldeyriseign 730 milljarðar króna.

„Gengi krónunnar er orðið mjög lágt, mun lægra en fær staðist við eðlilegt framleiðslustig í efnahagslífinu,“ segir Ásgeir sem segir raungengi krónunnar ekki í samræmi við undirliggjandi hagstærðir.

„Það sést vel af því að viðskiptajöfnuður er jákvæður, þrátt fyrir að sóttvarnaráðstafanir hafi nær stöðvað komu erlendra ferðamann. Staða þjóðarbúsins, bæði heimila og fyrirtækja, er almennt sterk og ríkisfjármálin standa styrkum fótum til að mæta þessu efnahagsáfalli. Við munum aftur sjá blússandi viðskiptaafgang um leið og slakað verður á sóttvarnaráðstöfunum.“

Ásgeir telur að sjóðirnir muni áfram vera minnugir ábyrgðar sinnar um að halda að sér höndum því hafi sérstöðu sem fjárfestar þar sem þeir fái hlutfall af launum landsmanna.

„Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að fá þá aftur inn sem þátttakendur á gjaldeyrismarkaðinum. Gengisveikingin hefur auðvitað haft þau áhrif að vægi erlendra eigna hefur aukist sem hlutfall af heildareignum sjóðanna. Það kann því að vera minni ástæða fyrir lífeyrissjóðina en ella, að auka mjög við erlendar fjárfestingar á þessum tímapunkti. Þeir gætu farið að velta fyrir sér gengisvörnum, ef gengi krónunnar mun, innan ekki langs tíma, styrkjast á nýjan leik.“