Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum marsmánuði var tæplega 212.800 tonn sem er rúmum 52.100 tonnum minni afli en í marsmánuði 2004 en þá veiddust rúm 264.900 tonn. Milli marsmánaða 2004 og 2005 dróst verðmæti fiskaflans saman, á föstu verðlagi ársins 2003, um 11,8% en það sem af er árinu jókst það um 4% miðað við árið 2004.

Botnfiskafli var um 60.200 tonn samanborið við tæp 61.800 tonn í marsmánuði 2004 og dróst því saman um tæplega 1.600 tonn milli ára. Þorskafli var 28.200 tonn en 34.500 tonn bárust á land í marsmánuði 2004 og er það samdráttur upp á rúm 6.300 tonn. Af ýsu veiddust 11.700 tonn og er það rúmra 1.500 tonna aukning frá fyrra ári. Ufsaafli var rúm 5.300 tonn sem er nánast óbreytt aflamagn frá fyrra ári. Karfaafli var tæp 9.900 tonn sem er tæplega 2.700 tonna meiri afli en í mars árið áður að því er segir í frét Hagstofunnar.