Verð sjávarafurða hækkaði um 0,8% í nóvember síðastliðnum frá fyrri mánuði mælt í erlendri mynt (SDR), segir greiningardeild Glitnis. Hún segir afurðaverð á erlendum mörkuðum í sögulegu hámarki en það hefur hækkað um tæp 4,5% á síðustu þremur mánuðum.

"Sérstaklega er verð á botnfiskafurðum hátt um þessar mundir," segir greiningardeildin. En þessi útreikningur er byggður á nýlegum tölum Hagstofunnar á meðalverði allra tegunda sjávarafurða og á gengisbreytingum helstu gjaldmiðla.

Ytri aðstæður sjávarútvegsfyrirtækja eru blendnar um þessar mundir, að sögn greiningardeildarinnar.

"Sjávarútvegsfyrirtækin þurfa að taka á sig þorskkvótaniðurskurðinn á yfirstandandi fiskveiðiári sem kemur sér vitaskuld illa. Auk þess er olíuverð hátt þrátt fyrir nokkra lækkun undanfarna daga. Segja má að hátt afurðaverð í erlendri mynt valdi því að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja er enn þolanleg. Almennt hefur framboð af villtum fiski ekki aukist á heimsvísu að undanförnu en eftirspurnin er hins vegar sterk.

Mikil aukning í fiskeldi, meðal annars í í Asíu, veldur því hins vegar að heildarframboð af sjávarafurðum hefur verið nægilegt. Svo virðist sem litið sé á villtan fisk sem lúxusvöru í auknum mæli. Það er jákvæð þróun fyrir íslenskan sjávarútveg," segir greinnigardeildin.

Gengisspá greiningardeildar Glitnis gerir ráð fyrir nokkru veikari krónu í lok þessa árs og að hún verði 130 stig.  "Horfur fyrir næstu misseri eru því betri vegna þessa."