Hækkun sjávarafurða á síðasta ársfjórðungi er sú mesta á 12 mánaða grundvelli síðan á öðrum ársfjórðungi 2015. Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans en verðhækkunin á þriðja ársfjórðungi nam 9,3% í erlendri mynt.

Fyrstu níu mánuðina í ár var verðið að jafnaði 8,2% hærra en á sama tímabili í fyrra. „Til samanburðar hækkaði verðvísitala Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna á kjöti um 2,5% milli sömu tímabila. Litið yfir lengra tímabil hefur verð íslenskra sjávarafurða hækkað meira en heimsmarkaðsverð á kjöti. Þannig nemur hækkun verðs á íslenskum sjávarafurðum um 50% frá árinu 2010 en verðhækkun á kjöti nemur á sama tímabili 20%.“

Þrátt fyrir loðnubrest síðasta vetur segir Hagfræðideildin að útflutningsverðmæti sjávarafurða sé meira á fyrstu þremur fjórðungum ársins miðað við sama tímabil 2018. Það sem af er ári er verðmæti afurðanna 192 milljarðar króna sem er um 20 milljarða krónum meira en í fyrra, jafngildi 11,7% aukningu. Þess má geta að útflutningsverðmæti loðnuaflans er að jafnaði í kringum 20 milljarða króna.

Verðmætaaukningin er að mestu tilkominn vegna veikingu krónunnar en gengisvísitalan fyrstu níu mánuði ársins er nær 12% hærri en á sama tíma í fyrra. Mælt á föstu gengi jukust verðmætin um 0,2% milli ára.

„Lítil aukning útflutningsverðmætis þrátt fyrir hækkun afurðaverðs í erlendri mynt skýrist fyrst og fremst af loðnubresti en engar veiðar voru heimilar á síðustu vertíð. Útflutningsverðmæti loðnu dróst saman um 10,2 ma.kr. [sic] á föstu gengi krónunnar en litið fram hjá áhrifum loðnuútflutnings jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um 6%. Á gengi hvers tíma jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða, litið fram hjá loðnuútflutningi, um tæpa 30 ma.kr., eða 18,4%. Litið framhjá þeim útgerðum sem gera út á loðnu má ætla að margar útgerðir hafi því upplifað mikinn tekjuauka milli ára í krónum talið.“

Loðna hefur hækkað langmest á afurðamörkuðum erlendis og nemur hækkunin 114% milli ára, að því útreikningar Hagfræðideildarinnar gefa til kynna, en deildin setur þó fyrirvara við töluna og bendir á að hlutfall hrogna í útflutningnum hafi mikil áhrif. Hlutfallið hafi verið hátt í fyrra og því sé líklega um töluvert ofmat að ræða.

Humar hefur hækkað næst mest eða um 30% en humarvertíðin hér á landi var afspyrnu léleg í ár og í fyrra. Þorskafurðir hafa hækkað um rúm 7% og ýsa um um eitt prósent.