Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 269 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta er 7% aukning frá árinu 2011 og jafngildir 42% af heildarútflutningsverðmæti Íslands á síðasta ári. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg. Skýrslan var kynnt í morgun. Þar kemur sömuleiðis fram að útflutningsverðmæti sjávarafurða hafi aukist um 57% frá árinu 2008 og var sjávarútvegurinn með um 11,5% beint framlag til vergrar landsframleiðslu árið 2012.

Í skýrslunni kemur fram að Evrópu var mikilvægasta markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir í fyrra en um 79% allra útfluttra sjávarafurða á árinu fóru til álfunnar. Þetta er aukning um 3% milli ára. Mest var flutt út til Bretlands eða 18%. Þar á eftir komu Noregur og Spánn en þangað var flutt 7-8% af sjávarafurðum.

Þá var þorskur sem fyrr verðmætasta útflutningstegundin í fyrra en tæplega 101 þúsund tonn voru flutt út af þorskafurðum fyrir 83 milljarða króna. Þar á eftir komu loðnuafurðir en söluandvirði þeirra námu 30 milljörðum króna. Þá voru síldarafurðir seldar fyrir 26 milljarða króna á síðasta ári.