Heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða frá Íslandi til Rússlands nam 18,6 milljörðum á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofunnar en samtals voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 272 milljarða. Hlutfall útflutnings til Rússlands var því  6,8% árið 2013.

Vægi kaupa Rússa í útflutninig sjávarafurða hefur aukist mikið á undanförnum árum. Árið 2000 var hlutfallið aðeins 1,5%. Frá 2010 hefur það hækkað mikið. Þá var það 4,5%, 7,1% árið 2011 og 6,2% árið 2012.

Meginskýringin á auknum útflutningi til Rússlands er makríllinn. Hann nam um helmingi af öllum tekjunum árið 2013.

Eins og VB.is greindi frá hafa rússnesk yfirvöld lagt á innflutningsbann á matvælum, m.a. sjávarafurðum, til landsins frá ríkjum Evrópusambandsins, Bandaríkjunum, Noregi, Ástralíu og Kanada.

Ekki liggur fyrir hvers vegna Ísland er ekki á bannlistanum, en það er ljóst að miklir hagsmunir væru í húfi ef aðgerðirnar myndu beinast að Íslandi. Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir í samtali við Vísi að fyrst samkeppnisþjóðir Íslands fá ekki að flytja inn sjávarafurðir til Rússlands þá skapi það ákveðin tækifæri á þeim markaði.