Hugmynd Bjarna M. Jónssonar um virkjun sjávarfalla samhliða vegagerð og þverun Þorskafjarðar þykir áhugaverð. Þar skortir þó enn hagkvæmniútreikninga og deilur um samgöngubætur kunna að slá hugmyndina út af borðinu.

Vegagerðin er enn í vanda vegna andstöðu við vegagerð um Teigskóg við Þorskafjörð á Vestfjörðum en tekist var á um málið á íbúafundi á Patreksfirði í fyrri viku. Fyrir liggur úrskurður Hæstaréttar frá því í desember sem er landeigendum í vil og gegn þessari vegagerð. Með þverun yfir mynni Þorskafjarðar, um svokallaða A-leið, myndi þessi vandi verða úr sögunni og Teigskógur friðaður að auki. Þá væri líka hægt að nýta þá vega- og brúargerð til að virkja sjávarföll til raforkuframleiðslu samkvæmt hugmynd Bjarna M. Jónssonar.

Kristján Haraldsson orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða situr í stjórn fyrirtækisins Vesturorku - WesTide ehf. sem stofnað var um hugmynd Bjarna. Að félaginu standa í dag, auk Bjarna, Orkubú Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Kristján segir að samhliða vegagerð geti sjávarfallavirkjun í Þorskafirði verið álitlegur kostur en eftir sé að gera nauðsynlega hagkvæmnisútreikninga.

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins