Sprotafyrirtækið Marinox selur nú húðkrem undir nafninu UNA Skincare. Kremin eru unnin úr íslensku bóluþangi sem inniheldur mjög mikla líf- og andoxunarvirkni en bóluþangið var með yfirburðarvirkni í samanburði við aðra sjávarþörunga. Hörður G. Kristinsson, framkvæmdastjóri Marinox, segir þróunarferlið hafa tekið 5 ár en kremin hafa nú verið til sölu í þrjár vikur.

Hugmyndin var upphaflega að nota náttúruleg andoxunarefni úr sjávarþanginu í fæðubótarefni og  í matvæli til að auka geymsluþol. Hörður segir það þróunarferli taka lengri tíma en stefnan er að setja slíkar vörur á markað líka. Salan hefur farið vel af stað og Hörður bindur vonir við að vörurnar verði seldar erlendis.