*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 30. október 2008 14:51

Sjávarútvegsráðherra: Sjávarútvegsstefna ESB ósamrýmanleg íslenskum hagsmunum

Ritstjórn

„Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er sannarlega eitt af því sem er ósamrýmanlegast íslenskum hagsmunum,“ sagði Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra í ræðu sem hann hélt fyrir stundu á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna.

„Eða vill einhver halda því fram að sjávarútvegi okkar yrði betur borgið innan laga og regluverks ESB en hins íslenska?“ sagði Einar ennfremur.

Einar sagði að þunginn í kröfunni um aðild að ESB og evru hefði aukist og gagnrýndi hvað Evrópuumræðan væri þröng; hún snerist að mestu um evruna. Líta þyrfti á málið á víðari grunni og fram þyrfti að fara blákalt hagsmunamat þegar búið væri að draga fram kosti og galla aðildar að ESB.

Hvað sjávarútvegsstefnu ESB áhrærir sagði Einar að því væri haldið fram að Ísland gæti fengið varanlegar undanþágur frá henni.

„Þegar glöggt er skoðað er þó alveg ljóst að þær undanþágur sem vísað hefur verið til eru af þeim toga að þær kæmu að litlu gagni fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð. Takmarkaðar undanþágur sem miðast við vanbúinn flota, sem veiðir fáein hundruð tonn, svo sem á Möltu sem stundum hefur verið tekið sem dæmi að fyrirmynd, eru auðvitað ekki almennt fordæmi sem fylgt verður þegar slík mál verða rædd við okkur,“ sagði Einar K.

„Takmarkaðar undanþágur sem helgast af viðkvæmum, afmörkuðum hafsvæðum gefa okkur ekki nein fyrirheit um að vera skilgreind sem sérstakt fiskveiðisvæði sem ekki lyti öllum almennum reglum fiskveiðistjórnunar Evrópusambandsins, eins og eitt sinn var nefnt. Hinn hlutfallslegi stöðugleiki sem er kjarni sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins er ansi valt völubein í ljósi þess að við endurskoðun fiskveiðistefnu ESB sem nú er að hefjast, er það fyrirkomulag undir. Þessir þættir og fleiri verða ekki undan skildir í því hagsmunamati sem fram mun fara á næstunni.“