Einar Kristinn Guðfinnsson sagði í sjómannadagsræðu sinni að gengi krónunnar og hækkandi afurðaverð í þorski á heimsmarkaði hafi vegið upp á móti þeirri tekjuskerðingu sem varð vegna skerðingu þorskkvótans í fyrra.

Einar sagði að eftir ákvörðun sína í fyrra að skerða þorskaflaheimildir um þriðjung hefðu stjórnendur og annað starfsfólk í sjávarútvegi sýnt ótrúlega útsjónarsemi með því að búa til meiri tekjur úr minni heimildum. Hækkun afurðaverðs í þorski og lækkun gengis íslensku krónunnar hafi verið á móti þeirri tekjuminnkun sem þorskaflaskerðingin olli atvinnugreininni.

Ráðherra minnti jafnframt á að í fyrra hafi verið tekin ákvörðun um veiðireglu sem fylgt verði á næsta fiskveiðiári. Miðað verði við 20% veiðihlutfall af viðmiðunarstofni auk sveiflujöfnunar, en jafnframt að aflamark í þorski verði aldrei lægra á komandi fiskveiðiári en 130 þúsund tonn. Þannig hafi stefnan verið mörkuð til lengri tíma, í samræmi við óskir manna í sjávarútvegi sem kallað hafa eftir því að dregið yrði úr óvissu.

Þá gat Einar þess einnig í ræðu sinni að íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu undirbúið svar til mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna vegna þeirra sjónarmiða sem nefndin setti fram um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Hann ítrekaði að sjávarútvegurinn eigi að lúta sömu hagræðingarkröfum og aðrar atvinnugreinar, annars verði hann undir og laði ekki til sín það starfsfólk sem hann þarf á að halda.  Sjávarútvegsráðherra sagði að tryggja þurfi að sjávarútvegur verði alltaf eftirsóttur starfsvettvangur og að við þurfum að horfa til þeirra landa sem bestum árangri hafa náð í leit að fyrirmyndum.