Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, flutti erindi á Sjávarútvegsdegi SA, SFS og Deloitte, sem var haldinn í morgunn. Fyrirlesturinn bar heitið: „Stolt siglir fleyið mitt... krónuna á.“ Um fyrirlesturinn er fjallað á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins . Þar segir hún að eftir 25 ára hagræðingatímabil, sé sjávarútvegurinn betur í stakk búinn en áður til að mæta íslensku sveiflunni. Einnig bendir hún á að þrátt fyrir gengisstyrkingu krónunnar er afkoma í sjávarútvegi góð.

Þar kemur einnig fram að Ásdís hafi bent á að ríflegur varaforði sé ekki þjóðarbúinu að kostnaðarlausu. Hún segir kostnaðinn sem hlýst af varaforðanum slagi upp í 40 milljarði króna. Vísbendingar liggja fyrir um að inngripastefna Seðlabanka Íslands komi til með að taka breytingum á næstunni og því verði dregið úr gjaldeyrisinngripum. Krónan hefur styrkst samfleytt frá árslokum 2013.

„Áframhaldandi gengisstyrking krónunnar mun að öðru óbreyttu skila lakari afkomu í sjávarútvegi. Á komandi misserum verður talsverð áskorun að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Ef það tekst ekki þá er vitað hvað tekur við, slíka sveiflu þekkja Íslendingar og hafa upplifað margoft áður,“ er haft eftir Ásdísi í frétt SA.