*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 7. apríl 2014 09:15

Sjávarútvegur gæti orðið ásteytingarsteinn í viðræðum

Krafa Íslands um að komast hjá fyrirsvari ESB gagnvart öðrum ríkjum gæti orðið þrætuepli í viðræðum við sambandið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins um sjávarútvegsmál hófust ekki vegna makríldeilunnar og er óljóst hvaða áhrif nýtt samkomulag ESB, Noregs og Færeyja myndu hafa á framhald viðræðna. Þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræðurnar.

Þar kemur enn fremur fram að ef Ísland gengi í ESB og fengi engar varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu sambandsins þá yrði hægt að komast hjá því að fiskveiðiskip annarra ríkja hefðu aðgang að fiskimiðum innan 12 sjómílna. 

Í skýrslunni segir að ekki er hægt að spá fyrir hvernig krafa Íslands um sjálfstætt fiskveiðistjórnunarsvæði færi. Embætttismenn ESB virðast hafa skilning á hugmyndinni. Munurinn á stöðu Íslands og annarra ríkja sé sá að meginhugmyndin á bak við sjávarútvegsstefnu ESB er að aðildarríkin eigi landamæri hvert að öðru og veiði úr sömu stofnum. Þar af leiðandi sé miðstýringin mikilvæg til að koma í veg fyrir kapphlaup um auðlindina. 

Bent er á að Ísland geti máli sínu til stuðnings bent á nokkur fordæmi. T.d. megi benda á sérstök stjórnunarsvæði eisn og líffræðilega viðkvæm svæði og svæði sem byggjast á efnahagslegum og landfræðilegum aðstæðum. Einnig megi vísa til reglugerðar um framsal ESB á aflaheimildum er varða ákveðna fiskistofna. 

Í skýrslunni kemur fram að það eigi að vera hægt að koma að miklu leyti í veg fyrir að skip erlendra aðila fái afla úr íslenskum fiskistofnum án sérlausna eða undanþága. Það megi gera með því að setja inn skilyrði á borð við þau sem eru í löggjöf Breta og Dana til að koma í veg fyrir kvótahopp en þá er kveðið á um að erlendir ríkisborgarar hafi þurft að vera búsettir í landinu í a.m.k. tvö ár.

Það er þó talið ljóst að krafan um að komast hjá fyrirsvari ESB gagnvart ríkjum utan sambandsins varðandi sjávarútveg verður ásteytingarsteinn í viðræðum. „Krafa Íslands um að komast hjá fyrirsvari ESB gagnvart ríkjum utan ESB og innan alþjóðastofnana í málefnum er varða sjávarútveg verður ásteytingarsteinn í aðildarviðræðum. Slíkt fyrirkomulag er talið grafa undan sjávarútvegsstefnunni og gefa öðrum ríkjum óásættanlegt fordæmi sem þau geta stuðst við í aðildarviðræðum við ESB, jafnvel á óskyldum sviðum svo sem á sviði mannréttindamála. Embættismenn ESB hafa bent á að sjávarútvegsstefnan sé ekki eins stíf og hún er talin og klæðskerasniðnar lausnir séu algengar innan ESB. Hægt sé að finna lausn sem taki mið af óskum Íslendinga og aðstæðum. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að aldrei fyrr hefur ríki sem hefur sjávarútveg sem grundvallarhagsmuni sótt um aðild að ESB. Útilokað er að spá fyrir um hvernig slíkar lausnir verði útfærðar. Slíkar æfingar byggjast á getgátum. Ef ætlunin er að fá botn í það álitaefni er nauðsynlegt að klára aðildarviðræðurnar," segir í skýrslunni.