Ytri aðstæður íslenska sjávarútvegsins eru góðar um þessar mundir í kjölfar þess að afurðaverð á heimsmörkuðum hefur farið hækkandi samhliða því sem gengi íslensku krónunnar er að lækka. Í Morgunkorni Glitnis segir að þessi þróun sé jákvæð fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Hins vegar hefur kvótaniðurskurðurinn haft neikvæð áhrif. Auk þess er óvissa um stöðu loðnustofnsins. Greining Glitnis reiknar með að vaxandi spurn eftir sjávarafurðum á heimsvísu geri það að verkum að verðið haldist hátt áfram. Villtar sjávarafurðir eru í vaxandi mæli flokkaðar sem lúxusvara á erlendum mörkuðum, og teljum við að sú þróun sé jákvæð fyrir íslenskan sjávarútveg. Minnkandi vægi sjávarútvegs Vægi sjávarafurða í heildarútflutningi íslenska hagkerfisins hefur dregist saman undanfarin áratug. Á þessu ári má reikna með að 32% gjaldeyristekna komi frá útflutningi sjávarafurða en til samanburðar var þetta hlutfall 55% árið 1990. Þessi þróun mun halda áfram á næstu árum og við búumst við því að árið 2012 verði vægi sjávarafurða í útflutningstekjum komið niður í 27%. Þá má búast við að álútflutningur vegi þyngra í gjaldeyrisstekjum heldur en sjávarafurðir þegar fram líða stundir og að gjaldeyristekjur vegna útflutnings á áli verði 33% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2012.

Sjávarútvegsskýrsla um Ísland