Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í fyrirspurnartíma á Alþingi eftir hádegi í dag að ríkisstjórnin hefði ekki farið yfir mikilvægasta atriðið varðandi kvótafrumvarp sem hefur verið kynnt; afleiðingar þess fyrir bankakerfið. Bjarni benti á að heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja við íslenska bankakerfið væri í kringum 270 milljarðar króna. Samkvæmt óstaðfestum tölum séu skuldir við Landsbankann, sem að mestu sé í eigu ríkisins, 160 milljarðar króna.

Bjarni sagði að sú eignarýrnum sem fælist í breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu næmi upphæðum sem væru margfalt hærri en rætt var um í kringum Icesave.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir illa farið ef allt nema óbreytt stjórnkerfi fiskveiða sé ógn við sjávarútveginn. Frumvörpin verði þannig úr garði gerð að þau tryggi stöðugleika í sjávarútvegi. Útvegsfyrirtækjum bjóðist að gera nýtingarsamning til fimmtán ára og eigi rétt á viðræðum um nýtingu aflaheimilda átta ár til viðbótar að þeim loknum.

Hagfræðigreining í vinnslu

Steingrímur sagði hagfræðileg greining á áhrifum breytinganna sem boðaðar eru í frumvarpinu í gangi og ætti að vera lokið í byrjun júní. Tekjustreymi sjávarútvegsfyrirtækja væri gott og fjármunamyndun mikil. Það væri hátt verð á afurðum erlendis og aflabrögð ágæt.

Steingrímur spurði af hverju sjávarútvegurinn væri svona skuldugur. Gæti það verið vegna þess að fjárfestingar hefðu farið út úr greininni? spurði Steingrímur.

Bjarni sagði upplýsandi í þessar umræðu að ríkisstjórnin hefði ekki látið kanna áhrifin af breytingum sem boðaðar eru. Það eigi að kollvarpa kerfinu og sjá síðan til hvaða áhrif það hefur.