Rekstrarafkoma Vestmannaeyjabæjar var jákvæð um 525 milljónir króna í fyrra. Rekstrartekjur námu rétt rúmum fjórum milljörðum króna, jukust um 591 milljón, og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði námu rétt rúmum 3,5 milljörðum króna. Auknar rekstrartekjur skýrast öðru fremur af mikilli hækkun á útvarstekjum bæjarins og auknar útsvarstekjur af hærri tekjum í sjávarútvegi.

Bæjarstjórinn Elliði Vignisson segir í tilkynningu að í Vestmannaeyjum eins og annars staðar á landsbyggðinni þekkir fólk og finnur á eigin skinni að þegar vel fiskast græði ekki bara sjómenn og útgerðarmenn heldur samfélagið allt. Ársreikningar Vestmannaeyjabæjar sýni svo ekki verði um villst að allt tal um að íslenska þjóðin njóti ekki arðs af sjávarauðlindinni sé í besta falli moðreykur til þess fallinn að magna upp pólitíska deilu um hugsjón, ekki um sanngirni.

Þó svo að rekstur bæjarins sé traustur þá er hann vissulega næmur fyrir sveiflum í rekstri sjávarútvegsins, Vestmannaeyjabær er þó vel í stakk búinn að taka við eðlilegum náttúrulegumsveiflum sem geta orðið í rekstri sjávarútvegsins á milli ára. Verði undirstöðunum kippt undan rekstri sjávarútvegsfyrirtækja af völdum stjórnmálamanna þá muni það fljótlega hafa áhrif á rekstrarhæfi bæjarins.

Í uppgjöri Vestmannaeyjabæjar kemur fram að laun og launatengd gjöld sé stærsti liðurinn í rekstrarreikningi bæjarins. Þau námu 1.665 milljónum króna í fyrra. Stærsti málaflokkurinn í rekstri bæjarins er fræðslu- og uppeldismál, en til þess málaflokks er varið rúmum milljarði.

Skuldahlutfall yfir 150% viðmiðinu

Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 10.794 milljónum króna í lok síðasta árs, þar af var handbært fé upp á 3.836 milljónir króna. Skuldir og skuldbindingar námu 6.189 milljónum króna. Þar af námu skuldir til lánastofnana einungis rétt rúmum milljarði. Ástæðan fyrir því er sú að fyrir bankahrunið árið 2008 greitt niður vaxtaberandi skuldir upp á 1,8 milljarða. Þá kemur fram í uppgjörinu að Vestmannaeyjabær hafi greitt skuldir upp á 2883 milljónir króna og verði bærinn orðinn skuldlaus gagnvart lánastofnunum eftir fjögur ár.

Fram kemur í uppgjöri Vestmannaeyjabæjar að skuldahlutfall bæjarins var 184% en sé nú komið niður í 155%. Sé tekið tillit til hreins veltufés í útreikningi á skuldahlutfalli fer það niður í 59,19%.  Í nýjum sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að sveitarfélög skuldi ekki meira en sem nemur 150% af heildartekjum.