Stóriðjan greiðir 1,5 milljarða króna í auðlindaskatt, samkvæmt útreikningum greiningardeildar Arion banka. Þetta er helmingi lægra hlutfall af tekjum en fyrirtæki í sjávarútvegi greiða.

Greiningardeildinni reiknast svo til að veiðigjald fyrirtækja í sjávarútvegi nemi tveimur prósentum af tekjum, eða 2,5 milljörðum króna við upphaf fiskveiðiársins 2010/2011. Þetta er einum milljarði króna meira en stóriðjan greiðir í auðlindagjald, samkvæmt mati greiningardeildarinnar.

Greiningardeildin bendir á það í nýjustu Markaðspunktum sínum að útlit sé fyrir að álögur á sjávarútveginn kunni að verða auknar á næstu árum. Gangi það eftir fari veiðigjaldið í allt að 4,3 prósent af tekjum sjávarútvegsins verði núverandi frumvarp um fiskveiðistjórnunarkerfið að lögum.

Deildin segir stærstu fyrirtækin í stóriðju hér í eigu erlendra aðila. Meirihluti gjaldeyristekna sem stóriðjan skapi fari hins vegar úr landi. Á hinn bóginn séu sjávarútvegsfyrirtækin í eigu innlendra aðila. Þau skapi stærstan hluta af gjaldeyristekjum landsins en sjái fram á aukna gjaldtöku.

„Tekið skal fram að greiningardeild er ekki að leggja til aukna skattlagningu á stóriðju. Hins vegar má velta upp þeirri spurningu hvort verið sé að mismuna útflutningsgreinum á Íslandi þegar kemur að skattlagningu „auðlindar“,“ eins og segir í Markaðspunktunum.