Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir það bábiljur að arðgreiðslur í geiranum séu háar og vill hún í raun meina að hann greiði tvöfalt meiri skatt en aðrir geirar atvinnulífsins. „Sú vísa er oft kveðin í aðdraganda kosninga að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja séu háar,“ segir Heiðrún Lind í pístli í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins .

„Þegar betur er að gáð er staðhæfingin nefnilega röng. Samkvæmt opinberum upplýsingum frá Hagstofu Íslands liggur fyrir að arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði á árunum 2010- 2015 voru 21% í sjávarútvegi en 31% að jafnaði í atvinnulífinu.“

Samþjöppun skaðleg landsbyggðinni

Heiðrún Lind segir að því sé jafnframt oft haldið fram að veiðigjaldið sé lágt. Skorar hún á stjórnmálaflokka sem boða hærri gjaldtöku að upplýsa almenning að með því séu þeir jafnframt að styðja aukna samþjöppun í sjávarútvegi sem komi landsbyggðinni illa sem og tryggja lakari samkeppnisstöðu gagnvart erlendum fyrirtækjum sem ekki þurfa að greiða slík gjöld.

„Bábiljan um arðgreiðslur er síðan notuð sem rökstuðningur fyrir því að sjávarútvegur geti hæglega greitt hærra gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar,“ segir Heiðrún Lind sem bendir á að auðlindagjaldið leggist ofan á 20% tekjuskatt fyrirtækja.

„Umliðin ár hefur greitt veiðigjald verið áþekkt greiddum tekjuskatti sjávarútvegsfyrirtækja. Það má því segja að sjávarútvegur greiði um 100% hærri skatt en önnur fyrirtæki í landinu. Það stenst því engin rök að veiðigjald sé lágt.“