Með helgarblaði Viðskiptablaðsins fylgir tímaritið Fiskifréttir. Þar er að finna viðtal við Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. Einar er meðal annars spurður að því hvort rétt fyrir Ísland að ganga í ESB, eða hvort það myndi skaða sjávarútvegsiðnað þjóðarinnar.

„Reglan um hlutfallslegan stöðugleika gæti út af fyrir gefið til kynna að ekki yrði mikil röskun á veiðirétti okkar hér við land til að byrja með. Við megum þó ekki gleyma því að reglan um hlutfallslegan stöðugleika er ekki lögbundin. Hún er bara einföld samþykkt í framkvæmdastjórn ESB. Slíka samþykkt má afnema með tiltölulega einföldum hætti. Í annan stað er það grundvallarstefna ESB að þær reglur sem gilda í einu landi gilda í öllum öðrum löndum. Það liggur alveg ljóst fyrir að við höfum enga möguleika á varanlegri undanþágu frá fiskveiðilöggjöf Evrópusambandsins. Í þriðja lagi vitum við að það er óskaplega erfitt að stunda fiskveiðar í samstarfi við aðrar þjóðir. Þetta hefur blasað við okkur í Evrópusambandinu sem hefur átt í erfiðleikum með að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Þannig myndi þetta einnig vera gagnvart okkur.

Við megum heldur ekki gleyma því að auðvitað hafa íslensk fiskimið mikið aðdráttarafl fyrir aðrar þjóðir. Ég er ekki í neinum vafa um það að smám saman myndaðist pólitískur þrýstingur innan Evrópusambandsins þar sem reynt yrði að knýja okkur til að opna lögsögu okkar fyrir veiðum erlendra skipa. Ég segi því: Við vitum hvað við höfum en með inngöngu í Evrópusambandið væri við að hefja leik sem enginn veit hvernig endar. Við höfum ekkert að sækja inn í Evrópusambandið með hliðsjón af hagsmunum sjávarútvegs. Þvert á móti. Auðvitað kunna að vera mörg gild rök fyrir aðild Íslands að ESB en þau verða ekki sótt í sjávarútveginn. Eins og sakir standa er ég því andsnúinn aðild.

Ég hef á hinn bóginn alltaf verið opinn fyrir því að ræða Evrópumál. Það hefur ekki staðið á mér og mínum flokki að gera það. Við höfum þvert á móti tekið gríðarlega mikinn þátt í þessari umræðu og höfum mótað þá Evrópustefnu sem fylgt hefur verið. Það er mikill misskilningur og beinlínis rangt sem haldið hefur verið fram að við viljum ekki ræða málefni Evrópu með opnum huga. Ég hef reyndar haldið því fram að það sé offramboð á Evrópuumræðunni og lítil eftirspurn“ sagði Einar.

Má búast við því að veiðar á stórhvölum í atvinnuskyni verði heimilaðar þrátt fyrir mikla andstöðu við þær víða erlendis?

„Ég hef reynt að nálgast þessa hluti með almennum hætti. Hér er um nýtingu auðlindar að ræða sem þarf að uppfylla ákveðin skilyrði eins og aðrar veiðar. Í fyrsta lagi þarf að stunda veiðar með sjálfbærum hætti. Í öðru lagi þurfa efnahagslegar og markaðslegar forsendur að vera með þeim hætti að veiðarnar geti staðið á eigin fótum. Í þriðja lagi þurfa veiðarnar að vera í samræmi við íslensk lög og skuldbindingar okkar erlendis. Hvalveiðar uppfylla öll þessi skilyrði. Ég sé því ekki neina ástæðu fyrir því að ríkisvaldið sé að leggja stein í götu fyrir atvinnustarfsemi sem fullnægir öllum skilyrðum.“

_____________________________________

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Einar K. þar sem hann ræðir m.a. minnkun þorskkvótans, ESB-aðild og hvalveiðar. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .