Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Evu Rún Michelsen, framkvæmdastjóra Húss sjávarklasans.

En hvernig sérðu framtíð sjávarútvegs fyrir þér?

„Ég hugsa að nýtingin verði enn meiri í öllum afla. Ég held að skipin verði orðin umhverfisvænni. Við erum sem dæmi mikið að vinna núna með hóp sem kallar sig Green Marine Technology. Þetta eru allt fyrirtæki sem eru að útbúa grænar lausnir, hvort sem það er betri kæling á sjávarafla sem eykur hillutíma vörunnar, sem er það sem ThorIce er til dæmis að gera. Svo erum við með stýranlega toghlera, sem Pólar Togbúnaður er að gera. Það bætir orkunýtingu með því að stýra toginu," segir Eva Rún.

„Ég held að ímyndin eftir tíu ár verði mun betri, að það verði bara mjög flott að vinna í sjávarútvegi. Vonandi verður ekki mikið talað um slorið eftir 10, 15 eða 20 ár en það verði meiri áhersla á nýsköpun, framþróun og betri nýtingu á afla. Markaðssetning íslensks sjávarútvegs og markaðssetning á íslenskum sjávarafurðum verður líklega betri. Það er eitthvað sem við mættum gera betur.“

Eva Rún segir aðspurð að Íslendingar standi mjög framarlega, ekki bara í sjávarútvegi almennt heldur sérstaklega þegar kemur að ný­ sköpun. „Við erum náttúrulega mjög tæknivædd þjóð en á sama tíma mjög einangruð, þannig að við þurfum að skapa okkar eigin tækifæri. En á meðan þú ert á meginlandinu er svo margt annað í boði. Allir sem við höfum talað við, eins og í Bandaríkjunum, vilja fá okkur á fyrirlestra eða hreinlega fá bara smá kennslu þegar þau frétta af okkur. Þau spyrja: „Hvernig förum við að þessu?“.

Eva Rún Michelsen er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .