Stjórn Sjælsø Gruppen, sem íslenskir fjárfestar eiga stóran hlut í, hefur ákveðið að kaupa eigin bréf eða allt að 10% fyrir um 2,4 milljarða íslenskra króna auk þess að greiða hluthöfum fjórar krónur danskar í arð á hlut.

Í tilkynningu Sjælsø til dönsku kauphallarinnar segir að það sé skoðun stjórnarinnar að gengi bréfa félagsins á markaði nú endurspegli ekki verðmæti né getu þess til að skapa verðmæti fyrir hluthafana með miklum tekjum og umtalsverðu frjálsu fjármagnsflæði. Það sé því skoðun stjórnarinnar að það sé í hluthöfunum í hag að félagið kaupi eigin bréf á markaði.

Íslenskir hluthafar í danska fasteigna- og þróunarfélaginu Sjælsø Gruppen eru meðal annars Björgólfsfeðgar, Straumur-Burðarás og Birgir Bieltvedt.