Skiptastjóri þrotabús Kaupfélags Vopnfirðinga hefur selt síðustu eignina úr búinu og er skiptum þess þar með lokið. Kaupfélagið var stofnað árið 1918 og var það stór vinnuveitandi á Vopnafirði á árum áður. Það var lýst gjaldþrota í október árið 2005 og hefur því tekið sjö ár að ljúka skiptum.

Lögmaðurinn Gísli M. Auðbergsson, skiptastjóri þrotabúsins, segir í samtali við vb.is sölu eigna hafa gengið treglega en skemma í eigu þrotabúsins stóð út af sem hindraði að hann gæti lokað búinu.

Lýstar kröfur í þrotabúið námu 144 milljónum króna á sínum tíma og var Landsbankinn helsti kröfuhafinn. Þá átti Kaldbakur kröfu á kaupfélagið ásamt minni kröfuhöfum.

Gísli hefur boðað kröfuhafa á skiptafund 6. desember næstkomandi og verður þeim þá gerð grein fyrir stöðu þrotabúsins.