Eignarleigufyrirtækið Lýsing hefur tekið 6 milljarða króna sambankalán með þátttöku sex evrópskra banka auk KB-banka. Í frétt Lýsingar kemur fram að um er að ræða erlent lán til fimm ára að upphæð 75 milljónir Evra, eða tæplega 6 milljarða íslenskra króna.

Það var HSH Nordbank sem hafði umsjón með útboðinu en auk þeirra eru eftirtaldir bankar þátttakendur í láninu:. LRP Landesbank, Bayerische Landesbank, Norddeutsche Landesbank, Landesbank Saar, Sparekassen Kronjylland og KB-banki.

Mikil eftirspurn var eftir að taka þátt í láninu og stjórnendur Lýsingar eru afar sáttir með þau kjör sem fengust með útboðinu. ?Við njótum góðs af því að hafa unnið með sumum þessara banka áður og Mark Dalgas einn yfirmanna HSH Nordbank hefur sjálfur áður haft umsjón með lánum til okkar,? segir Gunnar K. Sigurðsson, markaðsstjóri Lýsingar í tilkynningu félagsins.

Með lántökunni er Lýsing fyrst og fremst að mæta miklum vexti útlána á þessu ári. ?Við þurfum að öllum líkindum að taka annað slíkt lán snemma á næsta ári til að fjármagna áframhaldandi vöxt bæði í einstaklings- og fyrirtækjafjármögnun,? segir Gunnar og bætir við að fyrirtækið sjái enn töluverð tækifæri til vaxtar á einstaklingsmarkaði næstu misserin.

Að sögn Gunnars er markmið Lýsingar að auka mjög umsvif sín í fjármögnun atvinnuhúsnæðis. ?Við höfum nýlega breytt skilyrðum fyrir fjármögnun atvinnuhúsnæðis og nú er það orðinn fýsilegri kostur fyrir stærri hóp fyrirtækja en áður. Við bjóðum fyrirtækjum nú allt að 90% fjármögnun og getum gert í samninga til allt að 20 ára. Áður var hámarks lengd samninga hjá okkur 12 ár fyrir atvinnuhúsnæði.

Við höfum ennfremur lengi haft yfirburða markaðshlutdeild í fjármögnun atvinnutækja og hyggjumst við að sjálfsögðu halda þeirri stöðu. Samningur eins og þessi er mikilvægur liður í þeirri viðleitni okkar að bjóða viðskiptavinum okkar sífellt betri kjör.?

Lýsing er stærsta eignarleigufyrirtækið á markaðnum með ríflega 36 milljarða í útlánum. Fyrirtækið er eitt hið elsta sínu sviði hér á landi, stofnað árið 1986, og heldur því upp á 20 ára afmæli sitt á næsta ári.