Sjö framboð hafa borist til stjórnar VÍS. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Framboðsfrestur til stjórnar Vátryggingafélags Íslands hf. rann út á miðnætti í gær. Eftirtaldir einstaklingar hafa gefið kost á sér til setu í stjórn félagsins:

Athygli vekur að hjónin Guðmundur Þórðarson og Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir gefa bæði kost á sér. Þau óskuðu eftir hluthafafundi um miðjan síðasta mánuð. Af núverandi stjórn eru það bara Bjarni Brynjólfsson og Helga Jónsdóttir, sem gefa kost á sér áfram.Stjórnarformaðurinn, Guðrún Þorgeirsdóttir, gefur ekki kost á sér og ekki heldur Ásta Dís Óladóttir sem situr nú í stjórn VÍS.  Í ágúst hætti Steinar Þór Guðgeirsson í stjórninni. Vegna laga um kynjakvóta þurfa að minnsta kosti tvær konur eða tveir karlar að vera í stjórninni. Í framboði eru þrjár konur og fjórir karlar.

Jóhann Halldórsson, sem er í forsvari fyrir S8 ehf. er í framboði. Samkvæmt hluthafaskrá á vefsíðu VÍS á S8 ehf. 1,23% hlut í VÍS. Norðmanninum Jostein Sørvoll er teflt fram af Óskabeini ehf, sem á ríflega 5% hlut í VÍS. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að Lífeyrissjóður verslunarmanna, stærsti hluthafinn í VÍS, hyggist styðja Herdísi Dröfn Fjeldsted.

Davíð Harðarson og Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir gefa áfram kost á sér í varastjórn en að auki er Andri Gunnarsson, hjá Óskabeini ehf., í framboði í varastjórn.

Til aðalstjórnar:

  • Bjarni Brynjólfsson
  • Guðmundur Þórðarson
  • Helga Jónsdóttir
  • Herdís Fjeldsted
  • Jostein Sørvoll
  • Jóhann Halldórsson
  • Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir

Til varastjórnar:

  • Andri Gunnarsson
  • Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir
  • Davíð Harðarson