Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) komst að þeirri niðurstöðu í dag að íslenska ríkið hefði brotið gegn banni Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) við tvöfaldri saksókn í máli Braga Guðmundar Kristjánssonar. Dómurinn klofnaði í málinu en þrír dómarar af sjö skiluðu sératkvæði.

Líkt og mörg kunna að giska á er um skattalagabrot að ræða en í þeim efnum er syndaregistur íslenska ríkisins í Strassbourg orðið ansi langt. Nægir í því samhengi að nefna mál Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Bjarna Ármannssonar gegn ríkinu.

Sem kunnugt er hefur meðferð skattamála hér á landi farið fram bæði hjá skattyfirvöldum og síðan hjá ákæruvaldi ef meinbugir á framtali eru taldir stafa af stórkostlegu hirðuleysi eða ásetningi. Mál hafa hafist með rannsókn skattrannsóknastjóra sem síðan sendir þau ríkisskattstjóra til endurákvörðunar og, eftir atvikum, til héraðssaksóknara í sakamálameðferð. Við endurákvörðun á Skatturinn það til að bæta við álagi á vanframtalinn skattstofn en litið hefur verið svo á að í felist refsing í skilningi MSE.

Árið 2016 féll dómur MDE í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Þar sló MDE því föstu, áður hafði verið komist að sambærilegri niðurstöðu í norsku máli, að þessi tvíþætta málsmeðferð fæli ekki sjálfkrafa í sér brot gegn MSE. Aftur á móti þyrfti meðferðin hjá skattyfirvöldum og saksóknara að vera nægjanlega samþætt hvað efni og tíma varðar til að það gengi upp.

Meðan dóms í því máli var beðið voru flest sakamál, sem vörðuðu skattalagabrot, sett á ís meðan dóms var beðið. Mál Braga var fyrsta málið þar sem Hæstiréttur gat mótað dóm MDE inn í íslenskan rétt en sjö dómarar skipuðu réttinn í málinu. Sex þeirra töldu að meðferðin kæmist í gegnum samþættingarprófið en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að vísa ætti málinu frá héraðsdómi þar sem ólögmæt tvöföld málsmeðferð væri þarna á ferð.

Ríkið geti ekki treyst á sakaða

Í niðurstöðu meirihluta dómenda MDE nú er efasemdum lýst um að málið hafi verið nægilega samþætt hvað efni varðar. Frá því að málinu var vísað frá skattrannsóknarstjóra til héraðssaksóknara hafi síðarnefnda embættið hafið eigin rannsókn. Sú hefði vissulega annað markmið en stjórnsýslumálið en hefði, að mati dómsins, bætt litlu við upphaflega málið. Í því hefði falist óþörf tvöföld málsmeðferð.

Hvað samþættingu í tíma varðaði sagði dómurinn að samanlögð meðferð, fyrir stjórnvöldum og dómstólum, hefði verið alls sex ár og fjórir mánuðir. Vissulega hefði hluta þess mátt rekja til tafa meðan dóms í máli Jóns Ásgeirs var beðið – þær tafir voru að beiðni sakborningsins – og ætti það ekki að koma niður á ríkinu.

Aftur á móti benti dómurinn á málin hefðu aðeins verið samtímis í um ellefu mánuði af þessum rúmu sex árum. Sá tími hefði enn fremur verið styttri ef ekki hefði komið til þess að Bragi kærði niðurstöðu ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Sagði meirihlutinn að „ríkið gæti ekki treyst á að hlutaðeigandi aðili tæmi allar kæruleiðir í fyrra máli til að samþætting við síðara málið skapist“.

Meirihlutinn taldi því að um brot væri að ræða og dæmdi ríkið til að bæta Braga sektargreiðslu, 13,8 milljón krónur, sem honum var gerð í sakamálinu auk málskostnaðar fyrir MDE. Þá fær hann 5 þúsund evrur í miskabætur.

Minnihlutinn algjörlega ósammála

Minnihluti dómsins var á öndverðum meiði. Hvað samþættingu í efni varðaði sagði minnihlutinn að fyrir héraðssaksóknara hefði vissulega verið byggt á skýrslu skattrannsóknarstjóra að miklu leyti. Hins vegar yfirheyrði embættið fleiri vitni og að rannsóknin hefði beinst að öðrum þáttum en hjá skattyfirvöldum. Þá hefði héraðssaksóknari hraðað rannsókn sinni og ákært Braga svo til um leið og niðurstaða hjá skattyfirvöldum lá fyrir.

Óljóst er hvaða áhrif dómurinn kann að hafa á mál sem eru til meðferðar. Eftir að dómur í máli Jóns Ásgeirs lá fyrir hefur nær undantekningalaust verið farið fram á frávísun frá héraðsdómi í sakamálum sem varða skattalagabrot. Þá hefur haugur rannsókna verið felldur niður þar sem héraðssaksóknari taldi víst að þær myndu ekki standast prófið fyrir dómstólum. Frávísunarmál hafa síðan flakkað talsvert milli Landsréttar og héraðsdómstóla.

Sú spurning vaknar nú að mál Braga var í fyrsta sinn sem Hæstiréttur beitti samþættingarprófinu og hafa lægri dómstig byggt á niðurstöðu Hæstaréttar í síðari málum. Vafaatriði er hvort þau haldi öll fyrst mál Braga féll.