*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 15. apríl 2021 15:01

Sjö dómarar í uppgreiðslumálum

Afar sjaldgæft er að allir dómarar Hæstaréttar myndi dóm í stöku máli en sú er raunin í málum sem varðar Íbúðalánasjóð.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Jónasson

Tvö mál sem varða lögmæti uppgreiðslugjalds hins sáluga Íbúðalánasjóðs eru komin á dagskrá Hæstaréttar. Allir sjö dómarar Hæstaréttar munu taka sæti í dóminum í málunum tveimur en tæp fjögur ár eru síðan sjö dómara mál var síðast dæmt fyrir réttinum. Þetta má sjá af dagskrá réttarins.

Málin tvö eru um margt merkileg. Dómar í héraði voru kveðnir upp um mánaðarmótin nóvember desember á síðasta ári. Niðurstaðan var sú að uppgreiðsluþóknun Íbúðalánasjóðs var dæmd ólögmæt. Afleiðing þess var að ÍL-sjóður, sem nýverið tók við réttindum og skyldum Íbúðalánasjóðs, hefði þurft að endurgreiða 5,2 milljarða króna í þegar greitt uppgreiðslugjald. Því til viðbótar voru um þrír milljarðar útistandandi í mögulegum þóknunum. Áhrifin á sjóðinn, sem nýverið endaði í A-hluta hins opinbera, hefðu því verið umtalsverð.

Hæstiréttur féllst í janúar á að taka málin fyrir beint úr héraði. Með öðrum orðum þá hoppa málin yfir eitt dómstig. Er það í fyrsta sinn frá dómstólabreytingu sem fallist er á slíka beiðni en slíkt er aðeins heimilt nema brýn þörf sé á skjótri niðurstöðu og að niðurstaðan geti verið fordæmisgefandi eða haft almenna eða verulega samfélagslega þýðingu. Áður hafði verið reynt á heimildina í málskotum í bótamálum tveggja dómaraefna við Landsrétt gegn ríkinu en því hafnað.

Sjö dómarar skipuðu síðast dóm í máli í Hæstarétti í september 2017 þegar Hæstiréttur lagði línurnar í skattamálum í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar gegn ríkinu. Almennt mynda fimm dómarar Hæstarétt eftir dómstólabreytinguna en forseti réttarins getur ákveðið að allir dómararnir sjö skipi dóm í „sérlega mikilvægum málum“.

Málflutningur í málunum tveimur verður í byrjun maí.