Sjö eru í haldi frönsku lögreglunnar vegna árásarinnar á ritstjórnarskrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í París í gær. Er þar um að ræða einstaklinga sem tengjast bræðrunum tveimur, Cherif og Said Kouachi, sem eru eftirlýstir vegna árásarinnar. Þriðji árásarmaðurinn, Hamyd Mourad, hefur þegar gefið sig fram við lögregluna.

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakka, segir að bræðurnir hafi verið undir eftirliti leyniþjónustu Frakklands áður en árásin átti sér stað þar sem þeir hafi verið þekktir fyrir skoðanir sínar. Hann segir jafnframt að verið sé að yfirheyra þá sem hafa verið handteknir í tengslum við málið, en vildi þó ekki gefa upp hvar fólkið hefði verið handtekið.

Alls létust tólf manns í árásinni og ellefu særðust. Þjóðarsorg er í Frakklandi í dag vegna morðanna og verður mínútuþögn um allt landið á hádegi.