Meðalverð á gasolíu hefur á undanförnum tíu árum hækkað úr 117 dollurum tonnið í tæpa 900 dollara og verðið fór í fyrsta sinn í sögunni yfir 1000 dollara tonnið í byrjun þessa mánaðar.

Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, segir að kostnaður útgerðarinnar hækki um rúma 7 milljarða á ársgrundvelli, eða 49%, frá síðasta ári vegna verðhækkana erlendis og veikingar íslensku krónunnar.

Sveinn segir í samtali við Fiskifréttir, sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag, að hækkun olíuverðs undangengin ár hafi haft gríðarleg áhrif á rekstur útgerðarinnar.

„Í eðlilegu árferði má gera ráð fyrir að olíukostnaður sé í kringum 8% af tekjum en í dag er þetta hlutfall orðið miklu hærra og allt að 20% sem er engan veginn eðlilegt. Þar sem olía er verðlögð í dollurum sló hátt gengi krónunnar á hækkun olíuverðs á meðan gengi dollarans var lágt. Dollarinn fór niður fyrir sextíu krónur á tímabili og það hjálpaði að sjálfsögðu til en eftir að krónan veiktist hefur dæmið snúist við varðandi olíuna,“ segir Sveinn.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í  sérblaði í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .