Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley hyggst kaupa eignastýringarfyrirtækið Eaton Vance fyrir sjö milljarða Bandaríkjadali, jafngildi 974 milljarða króna. Eaton Vance hefur verið einn umsvifamesti erlendi fjárfestirinn á íslenskum hlutabréfamarkaði á undanförnum árum.

Sjá einnig: Eaton Vance selur fyrir 65 milljónir

Í kjölfar samningsins munu eignir sem Morgan Stanley stýrir fyrir hönd lífeyrissjóða, tryggingafyrirtækja og annarra nær tvöfaldast í um 1,2 billjónir Bandaríkjadali. Árstekjur Morgan Stanley munu í þokkabót aukast um 1,7 milljarða Bandaríkjadali. Umfjöllun á vef WSJ.

Rekstur Morgan Stanley er skipt niður í fjóra hluti. Eignastýringarhluti félagsins er sá arðbærasti en sömuleiðis sá minnsti. Með yfirtökunni stækkar eignastýringarhlið félagsins um 500 milljarða Bandaríkjadollara, andvirði tæplega 70 þúsund milljarða króna eða um 70 billjónir króna. Slíkar fjárhæðir er erfitt að gera sér grein fyrir en verg landsframleiðsla Danmerkur var um 356 milljarðar Bandaríkjadala árið 2018.

Sjá einnig: Eaton Vance sektað um 14,6 milljónir

Morgan Stanley greiddi 56,5 Bandaríkjadali fyrir hvert hlutabréf í Eaton Vance. Það er 40% hærra en markaðsvirði félagsins var á þeim tíma. Í kjölfar fregnanna hafa bréf félagsins hækkað um tæplega helming í dag og kostar hvert hlutabréf 60 Bandaríkjadali þegar þetta er skrifað. Gert er ráð fyrir að yfirtökunni verði lokið á öðrum ársfjórðungi 2021.

Í upphafi árs stóðu bréf Eaton Vance í 47 Bandaríkjadölum og hafa því hækkað um tæplega 28% síðan þá. Lægst fóru bréfin á þessu ári í 24 Bandaríkjadali á marsmánuði og hafa því hækkað um 150% síðan þá.