Kröfuhafar í þrotabú R400 ehf., sem áður hét Rómur ehf., fengu 0,43% upp í 1,9 milljarða króna kröfur sínar í stað 0,09% eftir að eign kom fram tæpum sex árum eftir að skiptum lauk. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Umrætt félag, sem stofnað var í maí 2007 af Skollaborg ehf., sem var í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar og Jakobs Valgeirs, hélt utan um eignarhald og leigu á skipum og aflamarki. Skiptum lauk með úthlutun í febrúar 2013 og fékkst rúmlega 1,7 milljón króna upp í rúmlega 1,9 milljarða króna kröfur. Landsbankinn var eini kröfuhafi búsins.

Tæpum sex árum eftir að skiptum lauk hið fyrra sinn, það er fyrir rúmum tveimur árum, voru þau endurupptekin eftir að eign kom fram sem hafði ekki legið fyrir við skiptin þá. Viðbótarúthlutun fór fram á skiptafundi undir lok janúar 2021 og greiddust þar tæplega 6,5 milljón króna upp í kröfurnar. Alls fengust því tæplega 8,2 milljónir króna, eða 0,43%, upp í lýstar kröfur.