Miðlar á vegum 365, Símans, ÍNN, Hringbrautar og Útvarps Sögu hafa ákveðið að slökkva á útsendingum sínum í 7 mínútur fimmtudagskvöldið 1. september. Þetta er gert í tengslum við ákalls miðlanna um að fjölmiðlalögum séu breytt til að jafna samkeppnisstöðu þeirra á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Ákall fjölmiðlanna tengist því að erlendir fjölmiðlar sitji ekki við sama borð og íslenskir einkamiðlar. Erlendu miðlarnir herja nú á íslenskan áskriftar- og auglýsingamarkað án þess að greiða skatta né gjöld.

Þessir sömu fjölmiðlar skrifuðu pistil í Fréttablaðið þar sem að ráðherrar og Alþingi voru hvött til að gera lagabreytingar til að styrkja samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Tekið er fram í tilkynningunni að með breyttri umgjörð þá geti fleiri miðlar blómstrað hér á landi.

Fimmtudagur var valinn vegna þess að ekkert sjónvarp var á Íslandi á fimmtudögum til 1. október 1987.