Alls eru sjö í framboði til stjórnarsetu í Sýn en stjórnin er skipuð fimm stjórnarmönnum. Að mati tilnefningarnefndar eru allir frambjóðendur hæfir til stjórnarsetur. Þetta kemur fram í skýrslu tilnefningarnefndarinnar.

Stjórn Sýnar boðaði hluthafafund miðvikudaginn 31. ágúst. Aðdragandi boðunarinnar var bréf Gavia Invest til stjórnar Sýnar þar sem fjárfestingafélagið krafðist stjórnarkjörs en félagið festi kaup á 16,08% hlut í félaginu fyrr í sumar.

Sjá einnig: Gavia bætir við sig í Sýn og vill stjórnarkjör

Í stjórn Sýnar sitja Hjörleifur Pálsson, Jóhann Hjartarson, Páll Gíslason, Petrea Ingileif Guðmundsdóttir og Sesselía Birgisdóttir. Hjörleifur Pálsson er eini núverandi stjórnarmaðurinn sem sækist ekki eftir endurkjöri.

Þrír einstaklingar sem teljast til einkafjárfesta sækjast eftir kjöri. Það eru þeir Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri Reir, Jón Skaftason, fyrrum framkvæmdastjóri Strengs Holding og forsvarsmaður fjárfestingafélagsins Gavia Invest og Reynir Grétarsson stofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri Credit Info og stjórnarformaður og fyrrum forstjóri SaltPay.

Tilnefningarnefnd metur alla núverandi stjórnarmenn sem eru í framboði hæfa til að gegna áfram stjórnarstörfum en auk þess metur nefndin alla einkafjárfestannna sem eru í framboði hæfa.

Á aðalfundi Sýnar í mars á þessu ári voru þau Þröstur Olaf Sigurjónsson og Guðríður Sigurðardóttir. Hjörleifur Pálsson var þá skipaður fulltrúi Sýnar í nefndinni en hann kaus að taka ekki þátt í starfi nefnarinnar vegna yfirvofandi stjórnarkjörs. „ Hjörleifur kaus að taka ekki þátt í starfi nefndarinnar vegna stjórnarkjörs á hluthafafundi þann 31. ágúst næstkomandi til að auka líkur á að allir hluthafar gætu treyst því að ráðgjöf nefndarinnar væri hlutlaus og óháð. Hann kom því ekki að starfi nefndarinnar að neinu leyti að þessu sinni" segir í skýrslu nefndarinnar.