24 nýir þingmenn taka sæti á þingi að loknum kosningum ef marka má fylgiskönnun Gallup. Tíu þingmenn Samfylkingarinnar ná ekki kjördæmakjöri samkvæmt könnuninni og tveir þingmenn Vinstri grænna. Samfylkingin fær þó þrjú uppbótarsæti og missa því sjö þingmenn flokksins þingsæti sitt samkvæmt könnuninni.

Fjallað var um niðurstöðurnar í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins . Þau Helgi Hjörvar, Mörður Árnason, Álfheiður Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Magnús Orri Schram, Skúli Helgason og Árni Þór Sigurðsson eru meðal þeirra sem samkvæmt niðurstöðunum eru ekki kjördæmakjörin.

Líkt og greint var frá á föstudag sýna kannanir að Framsóknarflokkurinn bætir enn við sig fylgi á meðan fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur heldur dalað. Báðir flokkar fengju nítján þingmenn yrði gengið til kosninga nú. Könnun Gallup sýnir 26,8% fylgi Sjálfstæðisflokksins og 25,5% fylgi Framsóknarflokksins. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir hafa samtals 22,9% fylgi, Samfylkingin 14% en Vinstri grænir 8,9%. Fylgi Bjartrar framtíðar minnkar og mælist nú 13,2%.